Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, hefur verið ráðinn í starf aðstoðarforstjóra Nýherja. Finnur mun jafnframt gegna starfi framkvæmdastjóra Fyrirtækjasviðs Nýherja. Finnur verður ábyrgur fyrir stefnu og daglegum rekstri móðurfélags Nýherja innanlands auk samhæfingar og uppbyggingar á þjónustulausnum félagsins. Finnur byrjar hjá Nýherja í vikunni.

Fram kemur í tilkynningu frá Nýherja að Finnur Oddsson hafi gegnt starfi framkvæmdastjóra Viðskiptaráðs síðastliðin fimm ár. Hann er með BA-próf í sálfræði frá Háskóla Íslands, M.A. og Ph.D gráðu í sömu grein frá West Virginia University í Bandaríkjunum. Þá er hann með AMP í viðskiptafræði frá IESE-háskólanum á Spáni.

Finnur starfaði um árabil sem lektor við Háskólann í Reykjavík og stýrði þar meðal annars uppbyggingu á MBA námi HR og Stjórnendaskóla HR, en veitir nú háskólaráði HR formennsku. Áður starfaði Finnur við ráðgjafastörf hérlendis og erlendis á sviði frammistöðustjórnunar og stefnumótunar og við rekstrarstörf hjá Samskip.