Fimm fiskbúðir undir merkjum Fiskisögu munu í dag lækka fiskverð um allt að 50%. Misjafnt er hversu mikið vörur lækka en yfir heildina er um að ræða lækkun upp á rúm 30%. Fiskbúðirnar eru á sama tíma að breyta um áherslur segir í tilkynningu.

Vöruúrval verður aukið og verður meira lagt upp úr minna unnu hráefni sem skapar enn frekara svigrúm til verðlækkunar.  Þrjár megin ástæður skapa aðstæður fyrir svo mikilli lækkun. Fiskverð á mörkuðum hefur lækkað umtalsvert síðustu vikur. Móðurfélag Fiskisögu hefur ákveðið að lækka  álagningu í verslunum og loks næst fram enn meiri lækkun á vörum sem eru lítið unnar. Óvíst er hver þróun fiskverðs verður á næstunni en telja verður ólíklegt að það hækki mikið. Fiskisaga er hins vegar háð verði á mörkuðum og mun þurfa að endurskoða verð á nýjan leik, verði miklar breytingar á því, hvort sem er til lækkunar eða hækkunar segir í tilkynningu.

Sem dæmi um lækkun má nefna ýsuflök með roði. Kílóverð fyrir helgi var 1.250 kr. en er í dag 699 kr. Roð- og beinlaus ýsuflök kostuðu 1.490 kr. kg.  en lækka í 1.190 kr. Raspaðir ýsubitar fara úr 1.460 kr. kg.  í 999 kr. Hausuð heil ýsa verður nú aftur á boðstólum og verður kílóverðið 399 kr. Aðrar fisktegundir lækka einnig verulega í verði. Úrval tilbúinna fiskrétta verður áfram á boðstólum og kostar réttur dagsins 999 kr. kílóið.