Hagnaður af rekstri Fiskmarkaðs Íslands hf. á fyrri helmingi ársins um sem svarar 52,7 milljónum króna. Velta félagsins var 272,6 milljónir króna. Á tímabilinu rak félagið uppboðsmarkað fyrir fisk í Ólafsvík, Grundarfirði, Stykkishólmi, Rifi, Arnarstapa, Akranesi, Reykjavík og Þorlákshöfn. Seld voru 28.724 tonn af fiski fyrir 3.615 millj. kr. og var meðalverð á kíló kr. 125,9 Á sama tímabili árið áður hjá Fiskmarkaði Íslands hf. voru seld 24.313 tonn af fiski fyrir 3.557 millj. króna og var meðalverðið á kiló kr. 146,3.

Þessi niðurstaða er í takt við væntingar stjórnenda og heldur betri ef eitthvað er. Meðalverðið á seldum fiski lækkaði um 14% á milli tímabila sem þýðir sambærilega lækkun á uppboðstekjum af hverju kílói til félagsins, hins vegar jókst selt magn um 18% og vegur það tekjulækkunina vegna verðlækkunarinnar upp og vel það. Ástæða þessarar lækkunar á fiskverði má aðallega rekja til mikillar lækkunar á ýsu og ufsaverði. Skapast það ma. Af mjög auknu framboði af þessum fisktegundum á heimsmarkaði og eins og kunnugt er þá hafa útgefnar veiðiheimildir í þessum fisktegundum aukist mjög á undanförnum tveimur árum og eftirspurnin einfaldlega ekki aukist með sama hraða. Þegar allt kemur til alls þá var fyrri hluti ársins félaginu mjög hagfellt í flesta staði og eru horfurnar fyrir árið í heild sinni mjög góðar. Selt magn hefur haldið áfram að aukast undanfarna tvo mánuði og því verður þriðji ársfjórðungur mun betri rekstrarlega en undanfarin ár, þegar afkoman hefur jafnan tekið mikla dýfu niður á við. Aukning í seldu magni er 13% fyrstu 6 mánuði yfirstandandi árs miðað við sama tímabil í fyrra. Eins og ávallt í þessum rekstri þá eru óvissuþættirnir margir, ma. þróun gjaldmiðla og fiskverðs og aflabrögð hjá viðskiptabátum félagsins og því varhugavert að gefa út nákvæmar afkomuspár fyrir árið. En miðað við stöðu og horfur í dag þá erum við væntanlega að sjá besta rekstrarár í sögu félagsins. Nánar verður gerð grein fyrir áætlunum,vegna ársins 2004 í fréttatilkynningu vegna 9 mánaða uppgjörs 1.1.-30.9.04.

Ekki hefur verið um neinar fjárfestingar eða breytingar í rekstri að ræða á tímabilinu sem hafa óvænt áhrif á afkomu félagsins.