Alþjóðlega matsfyrirtækið Fitch Ratings hefur hækkað lánshæfismat Ríkissjóðs Íslands fyrir langtímaskuldbindingar í erlendri mynt úr BBB í BBB+ og hækkað lánshæfismatið fyrir langtímaskuldbindingar í innlendri mynt í A- frá BBB+. Kemur þetta fram í tilkynningu frá Seðlabanka Íslands.

Matsfyrirtækið hefur einnig hækkað lánshæfismatið fyrir skammtímaskuldbindingar í erlendri mynt í F2 frá F3 og hækkað landseinkunnina (e. Country Ceiling) í BBB+ frá BBB. Horfur fyrir lánshæfismat á langtímaskuldbindingum eru stöðugar.

Í tilkynningunni kemur fram að aðgerða áætlun ríkisstjórnarinnar um afnám gjaldeyrishafta hafi mikið vægi í ákvörðun Fitch um að hækka lánshæfiseinkunn íslenska ríkisins, en Fitch telur áætlunina trúverðuga og að hún takist vel á við þann greiðslujafnaðarvanda sem fyrir liggi.

Að mati Fitch mun losun hafta bæta umhverfi atvinnulífsins. Þar að auki mun framkvæmd áætlunarinnar og tengd fullnusta á uppgjöri þrotabúa gömlu bankanna færa ríkissjóði umtalsverða búbót og bæta verulega erlenda stöðu þjóðarbúsins.