Í grein sem Nouriel Roubini, prófessor í hagfræði við viðskiptadeild New York háskóla, skrifaði í Financial Times á þriðjudag segir hann að þrátt fyrir lækkanir vikunnar sé það versta enn eftir. Fjárfestar hafi verið haldnir sjálfsblekkingu um hversu alvarleg áhrif veirunnar verði og að hætta sé á að samdráttur verði í heimshagkerfinu.

Segir hann sjálfsblekkingu fjárfesta m.a. felast í því að þeir hafi gert ráð fyrir að faraldurinn yrði einungis bundinn við Kína en ekki heiminn allan, gert hafi verið ráð fyrir að hægt væri að halda útbreiðslunni í skefjum og hún myndi ná hámarki áður en yfirstandandi ársfjórðungur væri á enda og takmarka þannig áhrifin á hagkerfi Kína og heimsins. Í þriðja lagi hafi fjárfestar gert ráð fyrir því að áhrifin á hagvöxt yrðu v-laga og að hagvöxtur myndi ná sér kröftuglega á öðrum ársfjórðungi auk þess sem markaðurinn hafi talið að bæði stjórnvöld og seðlabankar myndu grípa snemma inn í til að styðja við hagkerfi og markaði heimsins, fari svo að samdráttur verði mikill.

Bendir Roubini á að hætta sé á samdrætti í heimshagkerfinu byggt á því að áðurnefnd atriði munu að öllum líkindum ekki halda. Segir hann að nú þegar sé orðið ljóst að faraldurinn er ekki bundinn við Kína heldur hefur hann náð útbreiðslu um allan heim. Ólíklegt sé að áhrifin muni hverfa fyrir lok fyrsta ársfjórðungs sérstaklega vegna þess hve stór hluti af heimshagkerfinu Kína er auk þess sem bjartsýni bæði neytenda og fyrirtækja muni dragast saman.

Þá segir hann vonina um v-laga bata eiga sér enga stoð í raunveruleikanum. Sé horft til bjartsýnustu sviðsmyndarinnar þar sem veiran hefði einungis áhrif á kínverska hagkerfið myndi landsframleiðsla dragast saman um 2% á fyrsta ársfjórðungi. Hagkerfi landsins þyrfti að vaxa um 8% á síðustu 9 mánuðunum til að ná 4% hagvexti á árinu 2020. Þetta telur Roubini í besta falli mjög mikla bjartsýni og telur líklegra að vöxturinn nái í besta falli 6% á síðustu 9 mánuðum ársins sem myndi þýða 2,5% vöxt á árinu. Segir hann að þegar bæði raunsæja og jákvæða sviðsmyndin sé borin saman við núverandi 5,5% hagvaxtarspá fyrir Kína komi glögglega í ljós að fjárfestar séu enn í sjálfsblekkingu þar sem 2,5-4% hagvöxtur í Kína muni hafa mikil áhrif á heiminn allan.

Að lokum segir Roubini á að vonir um að stjórnvöld og seðlabankar geti brugðist við ástandinu séu byggðar á mikilli bjartsýni. Að hans mati munu stjórnvöld í löndum heimsins að litlu leyti bregðast við eða alls ekki. Þá bendir hann einnig á að seðlabankar heimsins hafi fá vopn eftir í vopnabúrinu þar sem stýrivextir í bæði Evrópu og Japan séu nú þegar við núllið auk þess sem 1,5% stýrivextir í Bandaríkjunum veiti seðlabankanum þar í landi einnig lítið svigrúm. Hann býst þó við því að bankinn lækki vexti sem muni hjálpa mörkuðum tímabundið. Hann segir þó að þar sem útbreiðsla kórónuveirunnar valdi að mestu leyti framboðsskelli sem hækki kostnað sem leiði til aukinnar verðbólgu með hliðaráhrifum á heildareftirspurn muni peningamálastefna ekki geta leyst vandann heldur þurfi aðrir þættir að koma til.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .