Eftir miklar lækkanir á hlutabréfamarkaðnum síðustu daga hækkaði Úrvalsvísitalan um 1,7% í 6,3 milljarða króna veltu í Kauphöllinni í dag er hlutabréf 17 af 20 félaga aðalmarkaðarins voru græn. Kvika banki og Eimskip leiddu hækkanir en félögin tvö birtu uppgjör eftir lokun Kauphallarinnar í gær.

Hlutabréfverð Kviku hækkaði um 5% í 1,3 milljarða veltu og stendur nú í 21,1 krónu á hlut. Hlutabréf bankans, sem skilaði 16,1% arðsemi af eiginlegu eigin fé fyrir skatta á fyrsta fjórðungi , höfðu fallið töluvert á síðustu misserum og eru enn um 20% lægri en í upphafi árs.

Gengi Eimskips, sem hagnaðist um 1,4 milljarða á fyrsta fjórðungi , hækkaði um 4% í 290 milljóna veltu og stóð í 520 krónum við lokun Kauphallarinnar. Hlutabréfaverð flutningafélagsins hefur nú hækkað 5,6% frá áramótum.

Hlutabréf útgerðarfélaganna Brim og Síldarvinnslan hækkuðu töluvert í viðskiptum dagsins.Gengi Brims hækkaði um 3,9% í 449 milljóna króna viðskiptum og stendur nú í 94,5 krónum á hlut. Hlutabréfaverð Síldarvinnslunnar er aftur komið upp 100 krónur eftir 2,9% hækkun í dag.