Gengi hlutabréfa lækkaði almennt á helstu fjármálamörkuðum í Asíu i nótt. Ástæðan eru áhyggjur fjárfesta í Bandaríkjunum af því að draga sé úr endurreisn efnahagslífsins þar í landi og að hagvöxtur verði hægari í nýmarkaðsríkjunum en búist var við. Þetta bætist við upplýsingar um minni framleiðni bæði í Bandaríkjunum og Kína upp á síðkastið.

Breska ríkisútvarpið ( BBC ) segir í umfjöllun sinni um fjármálamarkaði í byrjun dags fjárfesta uggandi um horfur í efnahagsmálum næstu misserin og telja vísbendingar um 3% samdrátt á milli ára í sölu á nýjum bílum í Bandaríkjunum í janúar vísbendingu um það sem koma skal.

Nikkei-vísitalan í Japan féll um 2,6%, Hang Seng-vísitalan í Hong Kong féll um 2,3% og Kospi-vísitalan fór niður um 1,6%. Í gær lækkaði gengi hlutabréfa nokkuð í Bandaríkjunum en bæði Dow Jones- og S&P 500-vísitölurnar fóru niður um 2%.