*

miðvikudagur, 4. ágúst 2021
Innlent 9. janúar 2017 16:30

Katrín: „Gjaldtaka nauðsynleg“

Katrín Júlíusdóttir, framkvæmdastjóri SFF, segir að ekki ætti að loka á að leyfa fjárfestingar einkaaðila í innviðauppbyggingu líkt og gjaldtaka á einstaka náttúruperlum sé nú orðin nauðsynleg þó hafi þótt óhugsandi áður.

Höskuldur Marselíusarson
Haraldur Guðjónsson

Katrín Júlíusdóttir framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja segir að í umræðu um ofsagróða í fjármálakerfinu gleymist að í íslensku samhengi séu þessi fyrirtæki stór, en í erlendu séu þau það ekki.

Spurð út í möguleikann á að leyfa fjármálafyrirtækjum að taka í auknum mæli þátt í innviðauppbyggingu nú þegar Íslendingar séu farnir að vera sífellt minni hluti notenda þeirra svarar hún:

„Jújú, það gæti verið áhugavert, það hefur svo margt breyst. Fyrir nokkrum árum þótti mörgum það óhugsandi að taka gjöld af einstaka náttúruperlum, en núna þegar við erum komin með þetta magn af ferðamönnum, er það orðið nauðsynlegt, þá bæði sem fjöldatakmörkun og til að fá fjármagn í viðhaldsverkefni og til uppbyggingar,“ segir Katrín.

„Auðvitað breytast viðhorfin með breyttu landslagi, en umræðan hefur verið á mjög viðkvæmu stigi. Ég held að menn ættu ekki að loka á hugmyndir um aukin fjárfestingartækifæri einkaaðila í innviðauppbyggingu. Það er ein leið til að nálgast markmiðið.
Það sem er mikilvægast í pólitík er að hafa auga á markmiðinu, og dæma engar leiðir fyrirfram úr leik. Ég hef stundum staðið sjálfa mig að því að detta í þá gryfju að halda með leið að markmiði frekar en að halda með markmiðinu sjálfu og horfa opið á leiðirnar.

Ef við horfum til dæmis á það markmið að bæta vegakerfið án þess að að auka um of álögur á íslenska notendur þess, sem búa til dæmis úti á landi, þá eigum við að vera opin fyrir leiðum að því markmiði.“

Arðgreiðslur til ríkisins námu 38 milljörðum

Katrín segir ljóst að fjármálafyrirtækin séu ekki einungis mikilvægur bakhjarl fyrir atvinnulífið í landinu heldur líka fyrir ríkisreksturinn.

„Fyrirtækin eru sterk og staða þeirra og grunnrekstur er góður. Við sjáum til dæmis að á árinu 2016 námu arðgreiðslur þeirra til ríkisins 38 milljörðum króna.

Þess vegna skiptir máli að búa þeim sambærileg skilyrði og öðrum svo þau geti haldið þessu áfram,“ bendir Katrín á en hún hefur áhyggjur af neikvæðri umræðu um fjármálageirann.

„Það má ekki gleyma að ef menn tala um meintan ofsagróða í kerfinu verður að setja þær stærðir sem um er að ræða í rétt samhengi.

Það eru um 600 milljarðar af eigið fé bundið í bönkunum, þannig að bankarnir eru ekki að skila nema kannski 10% arðsemi af eigin fé, sem er ásættanleg ávöxtun fyrir fyrirtæki í hvaða rekstri sem er.

Ástæðan fyrir því að þessar tölur eru svona stórar er sú staðreynd að margfalt meira eigið fé er bundið í bönkunum samanborið við önnur íslensk fyrirtæki. Í erlendu samhengi eru þessar tölur ekki stórar.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.