Náðst hafa samningar um byggingu kísilvers í Helguvík. Fjárfestingasamningar vegna verkefnisins milli Íslenska kísilfélagsins ehf., stjórnvalda og Reykjanesbæjar verða undirritaðir í dag klukkan 13:00 í Duus-húsi í Reykjanesbæ. Stefnt er að því að framkvæmdir við byggingu kísilversins hefjist á næstu mánuðum og að framleiðsla hefjist um sumarið 2013.

Fréttatilkynningin í heild sinni:

Að undanförnu hafa staðið yfir viðræður um kísilver í Helguvík. Boðað er til kynningarfundar í Duushúsi, menningar- og listamiðstöð Reykjanesbæjar, Duusgötu 2-8, í dag, fimmtudaginn 17. febrúar, kl. 13:00.

Á fundinum verða undirritaðir fjárfestingarsamningar milli Íslenska kísilfélagsins ehf, stjórnvalda og Reykjanesbæjar. Þá verður greint frá samningum Kísilfélagsins við HS Orku og Landsvirkjun, Landsnet og Reykjaneshöfn. Einnig verður kynntur til sögu nýr aðaleigandi í Íslenska kísilfélaginu ehf.

Á fundinum verða m.a. iðnaðarráðherra, fjármálaráðherra, sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, fulltrúar Íslenska kísilfélagsins, Landsnets, Reykjaneshafnar, HS Orku, Landsvirkjunar og  fjárfestingasviðs Íslandsstofu.