VR og SFR stóðu fyrir stærstu vinnumarkaðskönnunar sem gerð hefur verið á Íslandi, en út frá henni völdu félögin fyrirtæki ársins 2008 og einnig stofnun ársins.

Fjarhitun hf. og Vélfang ehf. voru valin Fyrirtæki ársins 2008. Fjarhitun vann í hópi stærri fyrirtækja á almennum vinnumarkaði þar sem vinna 50 starfsmenn eða fleiri og Vélfang vann í hópi smærri fyrirtækja.

Ríkisskattstjóri var valin Stofnun ársins 2008 í hópi stærri stofnana, þar sem starfsmenn eru 50 eða fleiri, og Skattrannsóknarstjóri ríkisins varð efstur í hópi minni stofnana. Þetta er þriðja árið sem Skattrannsóknarstjóri ríkisins lendir í fyrsta sæti.

Um 30 þúsund starfsmenn á almennum og opinberum vinnumarkaði fengu spurningaeyðublað um vinnuskilyrði á vinnustað sínum í tengslum við vinnumarkaðskönnunina. Svarhlutfall var samtals 45% hjá báðum stéttarfélögum, VR og SFR.