Margar af stærstu ákvörðunum í lífi fólks, sem hafa mjög mikla þýðingu fyrir lífsgæði þeirra, snúa að fjármálum. Samt er það svo að fjármálum er lítill gaumur gefinn í kennslu, sérstaklega á neðri skólastigum. Vextir, verðbólga, lántökur og verðbréf eru ekki fyrirferðamikil í kennslubókum, hvorki á Íslandi né í Svíþjóð.

Páll Harðarson, forstjóri Kauphallar Íslands og Magnus Billing, stjórnarformaður Kauphallarinnar í Stokkhólmi, eru sammála því að hér þurfi að verða breyting á og að skynsamlegt væri að fjármál yrðu stærri hluti af kennsluefni.

„Það er óþægilega stór hluti almennings sem virðist eiga erfitt með það einfaldlega að reikna út vexti á láni og ég tala nú ekki um flóknari hluti. Þarna mættum við vissulega beita okkur í meira mæli en við höfum gert,“ segir Páll. Á síðustu árum hefur þó farið af stað aukin fræðsla á vegum bankanna, Kauphallarinnar, VÍB og samtaka á borð við Unga fjárfesta, sem sé mjög til bóta og mikil þörf á.

Staðan í Svíþjóð er þó öllu betri hvað þetta varðar. Þar skiptir töluverðu máli að saga íslensku Kauphallarinnar er ekki nema 25 ár, samanborið við 150 ára sögu þeirrar sænsku. „Hér þarf að gera meira, ungu kynslóðirnar bera sjálfar meiri ábyrgð á eigin fjárhagsstöðu en foreldrar þeirra,“ segir Magnus. „Það er samt ákveðin vegferð sem þarf að ráðast í hvað menntun varðar.“

Nánar er spjallað við Pál og Magnus í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .