Fjármálaeftirlitið (FME) hefur tilkynnt Kauphöllinni um framlengingu á banni við skortsölu en FME setti upprunalega hömlur á skortsölu þann 7. október sl. sem gilda átti til s.l. föstudags, 16. janúar.

Um er að ræða áframhaldandi takmörkun á skortsölu fjármálagerninga útgefnum af tilgreindum fyrirtækjum í samræmi við fyrri tilkynningu.

Þannig er óheimilt að skortselja hlutabréf Straums-Burðaráss fjárfestingarbanka hf., Spron hf. og Exista hf., sem tekin hafa verið til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði á Íslandi, nema seljandi hafi bréfin í sinni vörslu þegar sölutilboð er lagt fram, enda tilkynni viðkomandi án tafar um viðskiptin til FME.

Í upphaflegu banni FME var einnig bannað að skortselja hlutabréf gömlu viðskiptabankanna.

Bannið tekur einnig til allra annarra fjármálagerninga sem hafa sama tilgang og sömu efnahagslegu áhættu og skortsala tilgreindra hlutabréfa og til skortsölu á öðrum fjármálagerningum þar sem verðmæti þeirra ræðst af verði hlutabréfa tilgreindra útgefenda.

Takmörkunin gildir til og með 31. janúar nk.