Fjármálaeftirlitið í Bretlandi hefur samþykkt kaup og yfirráð Kaupþings banka á Singer & Friedlander. Skilyrði tilboðsins hafa nú verið uppfyllt að öllu leyti.

Þetta kemur fram í frétt á heimasíðu Kaupþings banka en þar segir jafnframt: "Kaupthing Holdings UK er það ánægja að tilkynna að félaginu barst í dag samþykki frá fjármálaeftirlitinu í Bretlandi (Financial Services Authority) fyrir kaupum á og yfirráðum yfir Singer & Friedlander, í samræmi við 184 grein (section 184) í Financial Services and Markets Act. Skilyrði tilboðsins hafa nú verið uppfyllt að öllu leyti.

Í samræmi við tilkynningu frá Kaupthing Holdings UK þann 6. júlí 2005, verða greiðslur þær, sem hluthafar í Singer & Friedlander eiga rétt á samkvæmt, eða í tengslum við, tilboðið, póstsendar þeim hluthöfum Singer & Friedlander sem samþykkt hafa tilboðið, eigi síðar en 19. júlí 2005 og innan 14 daga frá móttöku að því er varðar öll frekari samþykki sem móttekin eru eftir daginn í dag og eru gild og fullnægjandi að öllu leyti (eins og lýst er í tilboðsskjalinu).

Eins og gefið er til kynna í tilboðsskjalinu, er það ætlun Kaupthing Holdings UK að sjá til þess að Singer & Friedlander sæki um afskráningu á þeim hlutum í Singer & Friedlander sem skráðir eru á ?the Official List" og sæki jafnframt um það til London Stock Exchange að viðskiptum með hluti í Singer & Friedlander verði hætt á markaði London Stock Exchange fyrir skráð verðbréf. Í samræmi við það er nú hafinn 20 virkra daga frestur og er gert ráð fyrir því að hlutirnir verði afskráðir og viðskiptum verði hætt þann 8. ágúst 2005 eða síðar, þó þannig að eigi séu liðnir færri en 20 virkir dagar frá dagsetningu tilkynningar þessarar. Frá þeim degi hættir Singer & Friedlander að vera skráð félag og ekki verður hægt að eiga opinber viðskipti með hluti í Singer & Friedlander."