Marel fann fyrir fjármálakreppunni í heiminum í rekstri sínum á fjórða ársfjórðungi. Eins og sjá má í meðfylgjandi töflu jókst velta félagsins á fjórðungnum umtalsvert á milli ára vegna yfirtöku á Stork Food Systems. Þegar horft er á proforma tölur, má hins vegar sjá að salan á fjórða fjórðungi dróst saman um 13% á milli ára og nam 138 milljónum evra. Proforma tölur sýna kjarnastarfsemi Marel og Stork Food Systems, að undanskildum Food and Dairy hluta Stork Food Systems og einskiptiskostnaði vegna Stork.

Samkvæmt proforma uppgjöri fjórða fjórðungs var 4,4 milljóna evra rekstrarhagnaður, EBIT, hjá Marel en ekki rekstrartap líkt og taflan sýnir. En jafnvel með proforma aðferð var mikill samdráttur á milli ára, og á það einnig við þó að tekið sé tillit til kostnaðar vegna endurskipulagningar.

Í fréttatilkynningu frá félaginu segir að horfur í rekstri þess mótist verulega af þróun efnahagsmála í heiminum á næstu mánuðum. Mótteknar pantanir hafi dregist verulega saman þegar alþjóðlega fjármálakreppan hafi skollið á í október í fyrra. Einnig séu dæmi um að viðskiptavinir hafi óskað eftir frestun á samningum sem þegar höfðu verið gerðir. Jákvæð þróun hafi hins vegar verið í mótteknum pöntunum í desember og janúar.