Fjármálaráðherra Frakklands, Christine Lagarde, hvetur bankastjóra Seðlabanka Evrópu, Jean-Claude Trichet, til að taka tillit til radda sem verði æ háværari um að bankinn horfi meira til hagvaxtar við vaxtaákvarðanir sínar. Þetta kom fram í ræðu sem Lagarde flutti á ársfundi World Economic Forum í Davos í Sviss, að því er segir í frétt Bloomberg.

„Ég vona að auk þess sem hann stýri verðstöðugleika taki hann tillit til athugasemda víðs vegar að úr Evrópu, ekki aðeins frá Frakklandi,“ sagði Lagarde. Nicolas Sarkozy forseti Frakklands hefur áður gengið fram fyrir skjöldu og hvatt Seðlabanka Evrópu til að ýta undir vöxt og halda aftur af hækkun gengis evru gagnvart dollar.

Trichet hefur hafnað þessum óskum og sagði meðal annars í viðtali við franska sjónvarpsstöð í gær að bankinn mundi einbeita sér að baráttunni við verðbólgu.