Hugmyndin á bak við sprotafyrirtækið Data Plato er að geta hjálpað fyrirtækjum við að geta séð hvar áskoranir liggja í rekstri þeirra og aðstoða þau við að leysa vandamálin. „Ég kalla þetta sýndarveruleikafjármálastjóra eða virtual CFO ,“ segir Guðmundur Jón Halldórsson, framkvæmdastjóri og stofnandi Data Plato, í samtali við Viðskiptablaðið.

„Mörg fyrirtæki eru lítil og eru ekki endilega með fjármálastjóra, og hafa annaðhvort ekki tíma eða bolmagn fyrir fjármálaráðgjafa til að koma til sín. Það sem ég er að gera er að nýta gervigreind og robo-advisory og koma niður á þann stað þannig að allir geti nýtt sér þetta á viðráðanlegu verði,“ útskýrir Guðmundur.

Ekki til að skipta fjármálastjórum út

Fjármálastjórar fyrirtækja þurfa þó ekki að örvænta, þar sem Guð­ mundur segir að hugmyndin sé ekki sú að skipta fjármálastjórum út, heldur að fyrirtæki fái enn betri upplýsingar til að geta unnið með.

„Þetta er viðbót og áherslan er að einfalda lífið fyrir fyrirtæki. Þetta snýst meðal annars um strauml­ínustjórnun (e. lean management). Þú vilt einbeita þér að því að sjá hver staðan er og hvernig skal bregðast við henni. Þegar þú talar við ráðgjafa, þá er mjög líklegt að ráðgjafinn hafi ekki aðgang að öllum þeim upplýsingum sem þarf til að gefa þér bestu mögulegu ráð­gjöf,“ segir framkvæmdastjórinn en það sama á ekki við um Data Plato.

„Það sem Data Plato snýst um er að einfalda hlutina fyrir þér og sýna þér hlutina eins og þeir eru, þannig að þú hafir tækifæri til að bregðast við með jákvæðum hætti. Svo erum við alltaf að læra á fyrirtæki og komum alltaf til með að vera með betri og betri fjármálaráðgjöf þegar á líður. Fyrir þessa þjónustu er eingöngu greitt fast gjald,“ bætir hann við.

Standa í fjármögnun

Stefnt er að því að fara með vöruna í loftið í lok september að sögn Guðmundar. Hann tekur fram að hægt verði að nálgast vöruna endurgjaldslaust fyrstu sextíu dagana frá því að hún fer í loftið, svo að hægt sé að prófa hana til. „Á meðan fyrirtæki eru að byrja í þessu sýnum við stöðuna eins og hún er, en þegar við lærum betur á gögnin verða greiningarnar betri og betri,“ segir Guðmundur.

Framkvæmdastjórinn segir að um þessar mundir standi fyrirtækið í fjármögnun – en það ferli hófst í byrjun síðustu viku. „Það að fá fjármagn er ákveðinn ferill sem tekur tíma,“ segir hann. Hann leggur áherslu á að fyrirtækið komi ekki til með að stækka eins hratt og kúnnafjöldi þess.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .