Fjármögnunarkostnaður Ítalíu hefur ekki verið hærri frá því að landið tók upp evruna. Í dag gaf ítalska ríkið út átta milljarða evra í tíu ára ríkisskuldabréfum og hækkaði ávöxtunarkrafan úr 5,86% í 6,06% á einum mánuði. Eftirspurn eftir skuldabréfunum var ekki mikil, eða tæplega 130% af seldum bréfum.

Ávöxtunarkrafa á styttri ítölsk skuldabréf hefur einnig hækkað undanfarið og er krafan á bréfum á gjalddaga í júlí 2014 komin í 4,93% og hefur ekki verið hærri síðan í nóvember 2000. Ítalska stjórnin hefur sagst ætla að grípa til aðgerða á næstu átta mánuðum til að breyta ítalska hagkerfinu og hefur fengið hrós leiðtoga annarra evruríkja fyrir, en fjárfestar eru hins vegar efins um að árangurinn verði í samræmi við væntingar.

Í kjölfar útboðsins lækkuðu allar helstu hlutabréfavísitölur í Evrópu, en þær höfðu byrjað daginn á hækkunum.