„Hann er kerlingin í sambandinu núna,“ segir Sæunn Lúðvíksdóttir um mann sinn, fyrrverandi skipstjóra sem tók þá ákvörðun að koma í land og stofna sitt eigið fyrirtæki. Sjálf er hún kokkur á uppsjávarskipinu Lundey NS sem HB Grandi gerir út frá Vopnafirði. Hún hefur verið á sjónum í um áratug.

Sæunn býr á Selfossi með fjölskyldu sinni, manni og fjórum börnum. Hún segir í samtali við blaðið að hún sé mikið að heiman vegna starfsins. Því miður sé ekki hægt að skreppa heim í löndunarfríum. Þegar Fiskifréttir ræddu við hana þá var hún búin að vera í burtu í 55 daga og fari hún ekki heim fyrr en eftir 25.

Sæunn segir viðhorf annarra kvenna um þá ákvörðun sína að fara á sjóinn komið sér verulega á óvart á sínum tíma.

„Ég fékk að heyra að ég væri að svíkjast undan merkjum og sinnti ekki börnum, heim­ili og maka eins og mér bæri að gera og það sveið. Hins vegar fékk ég að heyra frá karlkyninu að þetta væri sniðug leið fyrir mig til að komast aðeins að heim­ an og ekki verra að geta aflað góðra tekna um leið. Ég held satt að segja að konur í hefð­bundnum karlastörfum mæti gjarnan því viðhorfi að um sé að ræða uppátæki en ekki eiginlega vinnu,“ segir hún.

Nánar er fjallað um málið í Fiskifréttum. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.