Microsoft mun tilkynna í dag um enn fleiri hópuppsagnir til að lækka rekstrarkostnað. Þessu greinir NY Times frá. Forsvarsmenn fyrirtækisins tilkynntu á síðasta ári að 18 þúsund mönnum yrði sagt upp og munu fleiri bætast í þann hóp. Talið er að hópuppsagnir munu eiga sér stað í vélbúnaðardeild fyrirtækisins og í snjallsímadeildinni eftir kaup á Nokia í fyrra.

Í lok mars störfuðu 118 þúsund manns hjá Microsoft um allan heim. Hópuppsagnir hafa verið yfirvofandi hjá fyrirtækinu um nokkrt skeið. Í júní sendi Satya Nadella, nýr forstjóri fyrirtækisins, starfsmönnum tölvupóst sem ýjaði að uppsögnum.

Illa hefur gengið í snjallsímadeild fyrirtækisins, Windows Phone stýrikerfið hefur ekki náð jafn góðri stöðu á markaði og iOS frá Apple eða Android frá Google. Hins vegar er ekki talið að Microsoft muni gefast upp á snjallsímamarkaðnum þar sem mikilvægi snjallsíma er að aukast á markaðnum. Microsoft mun einnig senda frá sér nýtt Windows stýrikerfi á næstunni.