1451 kaupsamningi var þinglýst á höfuðborgarsvæðinu í júlí og er það 333% meira heldur en í júní. Þinglýstir kaupsamningar í júlí voru 144% fleiri heldur en í sama mánuði í fyrra. Þetta kemur fram í frétt á vefsíðu Þjóðskrár.

Meðalupphæð hvers kaupsamnings í júlí var 37,1 milljón króna, en var 37,4 milljónir í júní. Meðalupphæðin var 35,4 milljónir í sama mánuði í fyrra og hækkaði því um tæpar 2 milljónir milli ára. Veltan á fasteignamarkaði á höfuðborgarsvæðinu í júlí, miðað við þá kaupsamninga sem var þinglýst í mánuðinum, var 53,8 milljarðar króna.

Engum kaupsamningum var þinglýst á meðan á verkfalli lögfræðinga hjá sýslumannsembættum landsins stóð. Verkfallinu lauk þann 13. júní með lögbanni. Því var kaupsamningum aðeins þinglýst seinni hluta júnímánaðar, sem á vafalaust sinn þátt í að útskýra hvers vegna þinglýstum samningum fjölgar svo mjög milli mánaða.