Á milli áranna 2007 og 2008 stefnir í þreföldun kvörtunarmála sem berast Neytendasamtökunum hérlendis að því er fram kemur í upplýsingum frá samtökunum. Til samanburðar má geta þess að aukning fyrirspurna til Evrópsku neytendaaðstoðarinnar (EEC) nemur 10% á sama tíma.

Flest erindin til ECC vörðuðu ferðamál , einkum réttindi flugfarþega, en einnig kaup á bifreiðum, hlutdeild í afnotarétti orlofshúsa og hótelgistingu. Samkvæmt ársskýrslu Neytendasamtakanna á seinasta ári eru fyrirspurnir vegna ferðalaga og raftækja algengastar hérlendis en þar á eftir fylgja fyrirspurnir vegna verðlags og auglýsinga, bifreiða og póst og fjarskipta.

55 þúsund fyrirspurnir

ECC er starfrækt í öllum löndum Evrópusambandsins, auk Íslands og Noregs, og barst því 55 þúsund fyrirspurnir frá neytendum í fyrra, sem voru að leita réttar síns vegna viðskipta í öðru Evrópulandi. Hlutverk ECC er að kynna neytendum rétt sinn í viðskiptum milli landa. Einnig á ECC að ráðleggja neytendum og aðstoða þá við úrlausn ágreinings sem skapast vegna viðskipta í öðrum löndum.