Samkeppniseftirlitið telur að samstarf Capacent, RÚV, 365 miðla og Skjásins um rafrænar mælingar á hlustun og áhorf á útvarps- og sjónvarpsrásir geti raskað samkeppni, einkum á markaðnum fyrir fjölmiðlamælingar.

Þetta kemur fram á vef Samkeppniseftirlitsins en eftirlitinu barst nýlega erindi frá Capacent þar sem gert var grein fyrir samstarfinu. Þá var jafnframt tekið fram að liti eftirlitið svo á að samstarfið kæmi til með að raska samkeppni væri óskað eftir undanþágu á grundvelli samkeppnislaga.

Líkt og fyrr segir lítur Samkeppniseftirlitið svo á að samstarfið komið til með að raska samkeppni. Samkeppniseftirlitið hefur þó ákveðið að veita samstarfinu tímabundna undanþágu en bindur veitingu undanþágunnar skilyrðum.

Á vef eftirlitsins kemur fram að skilyrðum sé ætlað að eyða þeim vandkvæðum sem samstarfið kunni að hafa í för með sér með því m.a. að tryggja aðkomu nýrra ljósvakamiðla á markaðnum að því á sambærilegum kjörum og upphaflegir aðilar samstarfsins njóti.

Ennfremur að sporna gegn því að samstarfið komi í veg fyrir samkeppni á milli ljósvakamiðlanna sem að því koma með því að setja það skilyrði að þau upplýsingaskipti sem fram megi fara á milli aðila samningsins í tengslum við samstarfið verði takmörkuð.

Sjá nánar vef Samkeppniseftirlitsins . Þar er einnig hægt að nálgast ákvörðunina í heild sinni í pdf skjali.