Fjölskyldufyrirtækið Bökum saman hefur verið í stöðugum vexti frá því að það var stofnað um jólin 2020. Vörulínur fyrirtækisins eru pakkar sem innihalda númeraða poka með hráefnum sem þarf til að baka kökur frá grunni, auk leiðbeininga í hvaða röð hráefnin eiga að blandast.

„Ég bý til uppskriftirnar en móðir mín er alltaf til handar. Við fjölskyldan erum öll saman í þessu,“ segir Harpa Atladóttir, stofnandi Bökum saman. Hún segist hafa alist upp við bakstur, en móðir hennar sá um baksturinn hjá Te og kaffi á sínum tíma. „Ég hef alltaf haft gaman af því að baka. Eftir menntaskóla stóð valið á milli viðskiptafræðinnar og bakstursins. Viðskiptafræðin varð ofan á í það skiptið, en baksturinn hefur alltaf blundað í mér. Því var tilvalið að stökkva á þetta tækifæri í faraldrinum.“

Harpa og maðurinn hennar eiga þrjá stráka og segir hún hugmyndina að fyrirtækinu hafa sprottið upp í bústaðarferð hjá fjölskyldunni. „Við ætluðum að baka í ferðinni og ég tók með tilbúið deig úr búðinni sem strákunum leist ekki nægilega vel á. Þeir vildu sjálfir blanda hráefnunum saman til að búa til deigið. Þá fékk ég þessa hugmynd að gera baksturspakka. Það hentar sumum að vera með tilbúið deig en það er meiri samverustund sem felst í því að baka saman.“

Harpa segir að fyrirtækið hafi fengið mikinn meðbyr í faraldrinum. „Fólk var að kaupa pakkana fyrir fólk í sóttkví og einangrun. Við buðum jafnframt upp á heimsendingu í faraldrinum sem ég tel að hafi hjálpað til við söluna verulega.“ Hún segist hafa haft áhyggjur af því hvernig salan yrði þegar faraldurinn liði undir lok og fólk færi að mæta aftur á vinnumarkaðinn. „Það er gaman að sjá að við erum bara að fara upp á við núna og frá upphafi hefur verið stigvaxandi sölu- og tekjuaukning.“

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.