Greiðslukortavelta erlendra ferðamanna hér á landi var 6,5 milljarðar króna í desember sem er 1,3 milljarði króna meira en í sama mánuði í fyrra. Aukningin nam því 25% á milli ára. Þetta kemur fram í nýjum tölum frá Rannsóknarsetri verslunarinnar .

Hæstu fjárhæðunum í desember vörðu útlendingar til kaupa í verslunum eða 1,4 milljörðum króna. Næstmestu eyddu þeir í skipulegar ferðir eða 1,3 milljörðum króna. Þriðju hæstu fjárhæðinni var svo varið til hótela eða gistihúsa eða 1,1 milljarði króna.

Í desember var dagvöruverslun sú tegund verslunar þar sem erlendir korthafar vörðum hæstri upphæð eða 245 millj. kr. Það er um 25% aukning frá desember árinu áður. Næst mest velta var í fataverslunum (líklega aðallega útivistarföt) eða 241 millj. kr. Annars dreifist veltan á margar tegundir verslana; gjafa- og minjagripaverslanir, áfengisverslanir, bókabúðir o.fl.

Hver erlendur ferðamaður greiddi að jafnaði með greiðslukorti sínu fyrir um 121 þús. kr. í desember sem er 3,0% lægri upphæð en í desember í fyrra. Með því að leiðrétta þessa upphæð fyrir verðlagsbreytingum síðustu 12 mánaða lækkaði raunveltan um 3,8% á milli ára.