Tæplega fjórðungur fyrirtækja er með lán í vanskilum hjá þeim lánastofnunum sem úrtakið nær yfir. Þar af eru 80% eftirstöðva í alvarlegum vanskilum.

Þetta kemur fram í nýju riti Seðlabankans um fjármálastöðugleika.

Teið er fram að ekki sé að sjá að einhver tegund útlána sé fremur í vanskilum en önnur en búast hefði mát við að vanskil gengisbundinna lána væru meiri en annarra lána sökum aukinnar greiðslubyrði í kjölfar gengislækkunar krónunnar.

Í skýrslunni kemur fram að af gengisbundnum lánum hafa 14% verið fryst en í flestum tilvikum hefur verið sótt um frystingu höfuðstóls.

„Líklega hafa einhver fyrirtæki sótt um frystingu gengisbundinna lána í von um að gengi krónunnar styrkist,“ segir í skýrslunni en um 13% verðtryggðra lána hafa verið fryst.

„Greiðslubyrði þeirra hefur ekki hækkað jafn skarpt og greiðslubyrði gengisbundinna útlána þótt hækkunin sé umtalsverð,“ segir í skýrslunni.

„Hugsanlega hefur verið sótt um frystingu vegna almennra greiðsluerfiðleika, t.d. vegna minnkandi tekna. Þriðjungur útlána til fyrirtækja eru kúlulán þar sem annaðhvort eru greiddir vextir á lánstímanum eða þeir greiddir í lokin. Vanskil vegna slíkra útlána koma því jafnan ekki fram fyrr en að lánstíma loknum. Mörg slík lán eru á gjalddaga á næstu mánuðum og að því gefnu að miklar breytingar verði ekki á efnahagsumhverfinu gætu þær upplýsingar sem fyrir eru um vanskil vanmetið erfiðleika fyrirtækja.“

Rúmlega 70% útlána á gjalddaga næstu fjögur árin

Þá kemur jafnframt að lán til fyrirtækja eru oftast veitt í skamman tíma ólíkt lánum til einstaklinga. Stór hluti útlána til fyrirtækja verður því á gjalddaga á næstu fjórum árum en rúmlega fjórðungur útlána til fyrirtækja er með skemmri líftíma en ár.

„Langan tíma hefur tekið að setja upp stofnefnahagsreikning nýju bankanna þriggja og óvissa ríkir enn um eignarhald þeirra,“ segir í skýrslunni.

„Líklega hafa lánastofnanir verið óviljugar til að lána og semja um skuldir fyrr en þessar upplýsingar lægju fyrir auk þess sem óvissa hefur ríkt um ákvarðanir um endurskipulagningu skulda. Mikilvægt er að takast á við vandann sem fyrst svo að endurskipulagning skulda komist á skrið og fjármálastofnanir miðli lánsfé til arðbærra verkefna á nýjan leik, þótt óvisst efnahagsástand, tiltölulega háir nafnvextir og rýrnun veða eigi þar einnig hlut að máli.“

Þá segir jafnframt að í mörgum tilvikum hefur virði veða fyrirtækja minnkað vegna lækkandi eignaverðs og virði hlutabréfa í eigu fyrirtækja er oft lítið eða ekkert og í þeim tilvikum geti verið erfitt fyrir fyrirtæki að semja um endurfjármögnun.

„Fyrirtæki í þeim geirum sem hafa orðið fyrir hvað mestum skakkaföllum, t.d. byggingageirinn, eignarhaldsfélög og innflytjendur varanlegra neysluvara, sjá líklega fram á langvarandi samdrátt tekna,“ segir í skýrslunni.

„Í þeim tilvikum gæti orðið erfitt að endurskipuleggja skuldir. Á næstu tólf mánuðum eru rúmlega 750 ma.kr. gengisbundinna lána á gjalddaga. Samkvæmt gjaldeyrisreglum er ekki heimilt að veita erlend lán en heimilt er að framlengja lán sem veitt voru fyrir setningu þeirra. Framlenging er þó eingöngu leyfileg ef aðeins er um að ræða lengingu lána en ekki aðrar skilmálabreytingar.“