Fjórðungur heimila á Íslandi safnar annaðhvort skuldum eða notar sparifé sitt til að láta enda ná saman. Fjöldi þeirra heimila sem glíma við þann veruleika hefur þrefaldast frá árinu 2007.

Á því ári náðu endar ekki saman hjá um 8,4% Íslendinga. Nú er það hlutfall 24,7% og þar af safnar tæpur helmingur skuldum. Þetta kemur fram í tölum sem Auglýsingamiðlun hefur nýlega unnið úr könnunum Capacent um stöðu heimilanna.

Ætlar að láta bankanna borga fyrir afskriftirnar

Árni Páll Árnason félagsmálaráðherra segir að skuldastaðan sé mikið áhyggjuefni. Þvinga eigi banka til að afskrifa skuldir sem ekki sé greiðslugeta fyrir. Að því sé unnið um þessar mundir, til dæmis með umbreytingu bílalána, þar sem eignarleigufyrirtæki eru látin bera umbreytingarkostnað.

Hann segir það skýrt markmið að bankarnir séu látnir borga fyrir þær afskriftir sem fylgja umbreytingu á lánum. „Ekki stendur á mér að auka tapsáhættu banka og ég er í því alla daga. Bankar eiga að bera kostnaðinn af þessari umbreytingu og þeir eru að taka á sig töluvert mikla tapsáhættu með því sem við höfum þvingað þá til að gera nú þegar.“

____________________________

Ítarlega er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .