FL Group hf. hefur að því er kemur fram í tilkynningu náð samningum við Glitni banka hf., Hnotskurn ehf. og Samherja hf. um kaup á öllum hlutum þeirra í Tryggingamiðstöðinni hf. (TM) en um er að ræða 46,2% eignarhlut. Kaupverð hlutanna er 47 kr. á hlut og samanlagt kaupverð því tæpir 24 milljarðar króna. Kaupin verða að fullu fjármögnuð með útgáfu nýs hlutafjár í FL Group hf. Seljendur fá í sinn hlut 973.673.140 hluti í FL Group á genginu 24,3. FL Group átti fyrir kaupin 37,6% hlutafjár í TM og á því eftir kaupin 83,7%.

Kaupin eru háð samþykki hluthafafundar FL Group sem haldinn verður þriðjudaginn 25. september. Þar verður borin fram tillaga um hækkun hlutafjár félagsins vegna kaupanna. Viðskiptin eru ennfremur háð samþykki Fjármálaeftirlitsins. FL Group mun í kjölfarið gera öðrum hluthöfum í TM yfirtökutilboð og er gert ráð fyrir að TM verði afskráð af OMX Reykjavik.

Í kjölfar viðskiptanna eykst styrkur FL Group verulega og eigið fé fyrirtækisins mun aukast um tæpa 24 milljarða króna. Heildareignir FL Group námu við lok annars ársfjórðungs um 320 milljörðum króna og heildareignir TM á sama tíma voru rétt um 75 milljarðar króna. FL Group hefur því á þessu ári, líkt og undangengin ár, stækkað hratt og umsvif þess aukist að sama skapi. Heildareignir félagsins námu 263 milljörðum króna í upphafi ársins.

Stjórnendur FL Group telja að með þessum kaupum opnist tækifæri fyrir félagið á nýju sviði og að möguleikar félagsins til áframhaldandi vaxtar á fjármálamarkaði aukist. Í tilkynningu kemur fram að kaup FL Group á TM er fyrsta skref félagsins inn á tryggingamarkaðinn en fyrir hefur það beint sjónum sínum mjög að bankageiranum og er stærsti hluthafinn í Glitni banka ásamt því að eiga umtalsverðan hlut í þýska bankanum Commerzbank. Með kaupunum verður ákveðin áherslubreyting þegar rekstrarfélag verður aftur hluti af FL Group samstæðunni og mun það styrkja félagið enn frekar.

TM er öflugt félag með sterka stöðu á tryggingamarkaði á Íslandi og öfluga starfsemi í Noregi. TM keypti norska tryggingafélagið Nemi á síðasta ári og hefur rekstur Nemi vaxið hröðum skrefum frá þeim tíma. Það er mat stjórnenda FL Group að enn frekari tækifæri bíði á erlendri grundu sem unnið verður úr á næstunni.


Hannes Smárason forstjóri FL Group segir í tilkynning: ,,Með kaupum á TM er nýjum stoðum skotið undir starfsemi FL Group. Rekstur TM fellur vel að starfsemi okkar og þeim áherslu sem við viljum leggja í fjármálageiranum. Við munum leggja okkur fram um að styrkja og efla stöðu TM bæði hérlendis og erlendis og teljum að félagið eigi mikla vaxtarmöguleika. FL er alltaf að skoða ný og spennandi verkefni og það gæti hentað TM að koma að þeim í félagi við FL Group. Það er því ljóst að það eru spennandi tímar framundan?