FL Group hefur, ásamt fjárfestum, undirritað samning um kaup á hollenska drykkjarvöruframleiðandanum Refresco Holding B.V., segir í fréttatilkynningu frá félaginu. Viðskiptablaðið greindi frá því að FL Group væri að vinna að kaupum á félaginu á föstudaginn í síðustu viku.

Kaupverðið er 461 milljón evra, sem samsvarar um 42 milljörðum króna, segir í tilkynningunni. FL Group verður stærsti hluthafi félagsins með 49% eignarhlut, en meðal annarra fjárfesta eru Vífilfell og helstu stjórnendur Refresco.

Fjárfesting FL Group nemur 56 milljónum evra, eða um fimm milljarðar króna, og er fjármögnuð með eigin fé. Kaupin eru háð samþykki samkeppnisyfirvalda.

FL Group seldi í síðustu viku 16,9% eignarhlut sinn í breska lággjaldaflugfélaginu easyJet og nam söluhagnaður félagsins 140 milljónum evra, eða rúmlega 12 milljörðum króna.

FL Group segir rekstur Refresco hafa gengið vel undanfarin ár en velta félagsins jókst um 10% árlega á tímabilinu 2000-2004, og stækkaði þar með hraðar en markaðurinn.

Samkvæmt ráðgjafafyrirtækinu Booz Allen Hamilton (BAH) stækkaði evrópski markaðurinn fyrir ávaxtasafa um 4% á sama tímabili, en vöxtur í sölu undir eigin vörumerkjum nam 8%. Gert er ráð fyrir áframhaldandi vexti og auknum umsvifum í rekstri félagsins.

Í tilkynningu FL Group segir: ?BAH áætlar að markaðurinn fyrir helstu vörur Refresco muni vaxa um 6-8% á næstu árum, en aukin samþjöppun meðal stórmarkaða og vaxandi markaðshlutdeild lágvöruverðsverslana í Evrópu, munu stuðla að vexti í geiranum. Mikilvægur vaxtarbroddur fyrir Refresco er einnig sú þróun að neytendur hafa í auknum mæli lagt áherslu á heilsusamlega drykki og hentugar umbúðir, sem félagið stendur mjög framarlega í þróun á."

Hjá Refresco starfa um 1.200 manns í fimm löndum en félagið er annar stærsti framleiðandi á ávaxtasöfum og svaladrykkjum undir vörumerkjum verslana (e. private label) í Evrópu. Helstu markaðssvæði félagsins eru Þýskaland, Frakkland, Spánn, Portúgal, Holland og Finnland.

Stærstu viðskiptavinir félagsins eru leiðandi stórmarkaðir og lágvöruverðsverslanir í Evrópu. Helsta starfsemi félagsins er framleiðsla undir vörumerkjum þriðja aðila, en félagið framleiðir einnig fyrir alþjóðleg fyrirtæki sem selja undir þekktum vörumerkjum. Refresco framleiðir jafnframt undir eigin vörumerkjum.

Árið 2005 nam velta félagsins 606 milljónum evra (55 milljarðar króna) og var hagnaður félagsins fyrir fjármagnsliði og afskriftir (EBITDA) 64,1 milljónir (5,8 milljarðar króna).