Icelandair athugar nú að bæta við flugi til Kína, Japans og bandarískra borga eins og Seattle, Los Angeles og Denver. Þetta segir Hannes Smárason, forstjóri FL Group, í viðtali við Dow Jones Newswires. Þá segir hann að FL Group, móðurfélag Icelandair, hafi áhuga á að auka hlut sinn í lággjaldaflugfélaginu easyJet.

Icelandair starfrækir nú 17 Boeing þotur og flýgur til 22 áfangastaða í 10 löndum, þ.á.m. sex borga í Bandaríkjunum.

Hannes segir í viðtalinu að þótt breskar reglur hindri að easyJet fljúgi ákveðnar leiðir ef það er í erlendri eigu hafi það ekki áhrif á fyrirætlanir FL Group um að auka hlut sinn í félaginu. Hann er nú 16,9%. "Það eru alltaf leiðir til að komast í kringum það. Það er hægt að fá fjárfesta í Bretlandi til liðs við sig, það er hægt að gera alls konar hluti til að komast í kringum þetta ef vilji er til þess. [Ákvörðunin ]snýst meira um fjárhagslegu hliðina og framtíðarhorfur starfseminnar," segir hann.

Hannes vill ekki gefa upp hversu mikils fjár FL Group búist við að afla með skrásetningu og sölu hlutabréfa í Icelandair, en eins og kunnugt er hefur verið tilkynnt að Icelandair verði sett á hlutabréfamarkað í vor. Dow Jones hefur eftir sérfræðingum að útboðið sé til marks um að FL Group hyggist halda áfram að taka félög yfir. Síðan 2004 hefur FL Group breyst úr flugfélagi í fjárfestingafélag og eru flugfélög aðeins helmingur af efnahagsreikningi félagsins. Félagið hefur keypt stóra hluti í Kaupþingi, Glitni, norska fjárfestingafélaginu Aktiv Kapital ASA, Bang & Olufsen A/S og Royal Unibrew A/S í Danmörku.

Hannes segir Dow Jones að ætlunin sé að allt að áttfalda eigið fé FL Group á næstu tíu árum og að útrásin verði fyrst og fremst miðuð við Norður Evrópu, nánar tiltekið Skandinavíu og Bretland.

"Ástæðan fyrir því er að við teljum okkur þekkja þessa markaði nokkuð vel," segir Hannes. "Það eru önnur fyrirtæki starfandi á þessum svæðum sem við erum vel kunnugir. Þar er hægt að gera hagstæða samninga og það er gott að vera staðsettur á Íslandi og hafa þónokkuð góðan aðgang að mörkuðunum."

Tekjur FL Group af fjárfestingum jukust úr 2,1 milljarði króna árið 2004 í 19,6 milljarða árið 2005. Heildareignir samstæðunnar hafa nærri þrefaldast á einu ári og nema nú 132,6 milljörðum króna.

"Starfsaðferðir okkar felast í því að hafa skýra áætlun um hvernig við munum bæta rekstur þeirra fyrirtækja sem við fjárfestum í. Við þurfum ekki að eiga allt. Ef við eigum umtalsverðan hlut getum við haft áhrif," segir Hannes.