Um 852,4 þúsund farþegar fóru um Keflavíkurflugvöll í síðasta mánuði og var fjöldinn 1% meiri en í júlí 2019. Í júlímánuði flugu bæði innlend og erlend flugfélög á 77 áfangastaði og voru 78,2% af heildar brottfararfarþegum erlendir, að því er kemur fram í tilkynningu frá Isavia.

Stefna flugvallarins, sem sett var fram í fyrra, hefur verið að bæta tengingar og auka flugleiðir til og frá Keflavíkurflugvelli í samstarfi við ólík flugfélög. Isavia segir þær áætlanir hafa farið fram úr björtustu vonum.

„Það er frábært að sjá hvað flugfélögin voru tilbúin að auka hratt framboð á flugi til og frá Íslandi. Nú er mikilvægt að halda áfram þeirri góðu vinnu sem unnið hefur verið í uppbyggingu á Keflavíkurflugvelli til að mæta eftirspurninni sem er vaxandi,“ segir Guðmundur Daði Rúnarsson, framkvæmdastjóri viðskipta og þróunnar hjá Isavia.

Framkvæmdir hafa staðið yfir á Keflavíkurflugvelli meðal annars vegna byggingu 1.200 metra akbrautar fyrir flugvélar og byggingar á nýrri austurálmu sem er rúmlega 20.000 fermetrar að stærð sem áætlað er að verði tekin í notkun árið 2024. Isavia bendir á að Icelandair og Play hafa tilkynnt um stækkun flugflota á næstu misserum og telur því mikla þörf á að framkvæmdir á flugvellinum haldi áfram.

„Þrátt fyrir að rekstur flugvallarins hafi gengið almennt vel yfir sumarmánuðina biðjum við farþega um að sýna þolinmæði og biðlund. Á sama tíma vill Isavia þakka starfsfólki á flugvellinum, flugfélögum og samstarfsaðilum fyrir þeirra mikilvæga framlag að koma öllu í rekstur á ný á flugvellinum,“ segir Guðmundur Daði.