Fleiri neytendur eru nú svartsýnir í efnahags- og atvinnumálum hér á landi en þeir sem eru bjartsýnir, að sögn greiningardeildar Glitnis og les það úr væntingavísitölu Gallup sem var birt í morgun en vísitalan mældist í fyrsta sinn undir 100 stigum frá því í desember 2002.

?Væntingavísitalan hefur lækkað skarpt síðustu þrjá mánuði sem bendir sterklega til þess að nú hægi verulega á hröðum vexti einkaneyslu sem einkennt hefur þjóðarbúskapinn á síðustu misserum og að á næstunni muni einkaneyslan dragast saman," segir greiningardeildin.

Þá segir hún að verulega hafi dregið úr væntingum neytenda til ástandsins í efnahags- og atvinnumálum eftir sex mánuði og hafa væntingar ekki mælst svo lágar frá nóvember 2001 en þá reyndist samdráttur framundan í efnahagslífinu. ?Segja má að væntingar neytenda rími þannig við spá okkar um að verulega dragi úr hagvexti á næsta ári," segir greiningardeildin.

Núverandi ástand í efnahagsmálum er gott að mati 30% neytenda en þetta hlutfall hefur lækkað hratt og mikið á síðustu mánuðum. Hins vegar telja um 27% neytenda að efnahagsástandið sé slæmt og hefur það hlutfall hækkað á síðustu þremur mánuðum.

Lítið sem ekkert atvinnuleysi um þessar mundir endurspeglast í því að stór hluti neytenda eða 46% telur að atvinnumöguleikar séu miklir í dag. Tæp 17% neytenda telja aftur á móti að atvinnumöguleikar séu litlir.

"Stór hluti neytenda eða 42% telur að efnahagsástandið muni reynast verra eftir sex mánuði en það er nú. Hlutfall svartsýnna neytenda í þessum efnum lækkaði lítillega frá fyrri mánuði þegar það fór hæst í 48% en hlutfallið er engu að síður umtalsvert hærra en það hefur verið á síðustu misserum. Nú telja aðeins 14% neytenda að ástandið muni reynast betra eftir sex mánuði. Atvinnumöguleikar reynast minni eftir sex mánuði að mati rúmlega 17% neytenda, en 11% neytenda telja að möguleikar sínir verði meiri," segir greiningardeildin.