Arðsemi eigin fjár hjá samstæðu Bláa lónsins var 85% á síðasta ári. Á sama tímabili var arðsemi eigin fjár hjá Jarðböðunum við Mývatn 65%. Arðsemi þessara tveggja baðstaðafyrirtækja var mun meiri en hjá öllum þeim félögum sem skráð eru á Aðalmarkað Kauphallarinnar. Það Kauphallarfélag sem kemst næst baðstöðunum hvað arðsemi eigin fjár varðar er Nýherji, en félagið hafði 36% arðsemi eigin fjár í fyrra. Icelandair hafði um 19% arðsemi eigin fjár.

Ásamt því að reka sinn þekkta baðstað nálægt Grindavík er Bláa lónið hf. rekstraraðili Fontana heilsulindarinnar við Laugarvatn. Félagið á auk þess fjórðungshlut í Jarðböðunum. Grímur Sæmundssen, forstjóri Bláa lónsins, bendir á það í samtali við Viðskiptablaðið að framlegð af rekstrinum sé mikil.

„Það sem er einkennandi fyrir þennan rekstur, og að mörgu leyti einstakt, er hvað EBITDA framlegð er há. Við höfum verið með undanfarin ár EBITDA hlutfall yfir 40% af veltu. Það er vísbending um mjög arðbæran rekstur,“ segir Grímur. Tekjur Bláa lónsins í fyrra voru um 4,9 milljarðar króna, en EBITDA fyrirtækisins var á sama tíma um 2 milljarðar. EBITDA framlegðin hækkaði milli ára, úr 41 prósenti í 43 prósent. Hagnaður samstæðu Bláa lónsins var 1.795 milljónir króna á síðasta ári, miðað við gengi evrunnar um áramót.

Nokkrar hugmyndir um fleiri jarðböð

Grímur segist vita til þess að nokkrir aðilar hafi skoðað að setja upp aðra baðstaði. „Eðli málsins samkvæmt, í ljósi velgengni Bláa lónsins, hafa menn velt þessum möguleika fyrir sér á öðrum stöðum. Við fögnum því að menn séu að skoða þessa valkosti," segir hann.

„Það hefur verið komið að máli við okkur út af nokkrum slíkum stöðum. Við höfum svo sem farið okkur hægt í þeim efnum vegna þess að við stöndum auðvitað í svo miklu uppbyggingarstarfi sjálf. Vöxturinn í greininni er svo gríðarlegur að menn þurfa að passa upp á að rækta sinn bakgarð og missa ekki fókusinn.

En vissulega hafa einhverjir rætt við okkur um ýmsar hugmyndir í þeim efnum. Ég er persónulega sannfærður um að það eru sóknarfæri á þessu sviði á völdum stöðum á landsbyggðinni,“ segir Grímur.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .