Frjálslyndir demókratar og samstarfsflokkar þeirra í efri deild japanska þingsins unnu mikilvægan sigur í þingkosningum í gær og hafa nú aukinn meirihluta (yfir tvö af hverjum þremur sætum) sín á milli.

Frjálslyndir demókratar eru flokkur fyrrverandi forsætisráðherrans Shinzo Abe, sem var myrtur í skotárás á föstudag þar sem hann flutti kosningaræðu. Abe gegndi embættinu frá 2012 til 2020, lengst allra japanskra forsætisráðherra frá upphafi, og var vel þekktur um allan heim.

Flokkurinn bætti við sig 10 þingsætum og hefur nú 119 af 248 alls í þingdeildinni, en aðeins var kosið í 125 þeirra í gær. Þröskuldurinn fyrir aukinn meirihluta skiptir samsteypustjórnina höfuðmáli fyrir eitt helsta baráttumál Abe og arftaka hans, Fumio Kishida: að endurskoða stjórnarskrá landsins og nema brott ákvæði sem meinar stjórnvöldum nokkurskonar hernað eða hernaðaruppbyggingu nema í varnarskyni. Ákvæðið var eitt af skilyrðum Bandaríkjanna, sem þá hafði hersetu í landinu, þegar ný stjórnarskrá var tekin upp eftir ósigur asíuríkisins í síðari heimsstyrjöldinni.

Í umfjöllun New York Times um málið er sigur Frjálslyndra demókrata og annarra flokka sem fylgjandi eru stjórnarskrárbreytingunni sagður eitt skýrasta dæmi þess pólitíska áhrifamáttar sem Abe hafði enn, bæði á stefnu síns gamla flokks og hinn almenna kjósanda.