Á morgun opnar Flügger sína áttundu verslun hér á landi undir nafninu Flügger litir. Nýja verslunin er staðsett í  nýbyggingu að Ögurhvarfi 2 í austurhluta Kópavogs og er um 250 fermetrar að flatarmáli að því er kemur fram í tilkynningu.


Flügger litir er sérverslun með málningu og málningarvörur auk veggfóðurs og býður upp á alhliða þjónustu og ráðgjöf um allt er lýtur að málningu og málningarvinnu. Í nýju versluninni við Ögurhvarf verður mikið úrval af veggfóðri í náinni framtíð.


Í tilkynningu kemur fram að Flügger leggur áherslu á að velja og nota í framleiðslu sína eins umhverfisvæn hráefni og völ er á og efni sem hafa lágmarksáhrif á notandann og umhverfið. Einnig leggur fyrirtækið sérstaka áherslu á að bjóða upp á vatnsþynnanleg málningarefni í stað leysiefnaþynntra efna með það að leiðarljósi að gæði og ending standist samanburð milli þessara tveggja tegunda.

Við opnunina verður gestum og gangandi boðið að koma og skoða verslunina við Ögurhvarf, nýta sér góð tilboð og gæða sér á grillpylsum, ávaxtasafa og kaffi. Börn fá blöðrur að gjöf. Alla helgina verða ýmis sértilboð í gangi. Verslunarstjóri í nýju versluninni er Halldór Olgeirsson.


Flügger rekur 8 verslanir undir nafninu Flügger litir á Íslandi; þrjár í Reykjavík, tvær í Kópavogi og svo eru verslanir á Akureyri, í Keflavík og Hafnarfirði.