Félag íslenskra flugumferðarstjóra (FÍF) hefur boðað 20 stuttar vinnustöðvanir dagana 27. júní til 20. júlí nk..

Í fréttatilkynningu frá FÍF segir að verkfallsboðunin nái til allra starfandi flugumferðarstjóra í landinu  hjá Flugmálastjórn Íslands, Flugmálastjórn á Keflavíkurflugvelli og hjá Flugstoðum.

Stjórn og trúnaðarráð Félags íslenskra flugumferðarstjóra gerðu tillögu um 20 sjálfstæðar fjögurra klukkustunda vinnustöðvanir og voru þær samþykktar í almennri leynilegri atkvæðagreiðslu sem fór fram meðal flugumferðarstjóra dagana 9.-10. júní síðast liðinn.

Í tikynningu FÍF segir að: „Þær takmörkuðu aðgerðir sem nú er gripið til eiga sér langan aðdraganda en með þeim freistar Félag íslenskra flugumferðarstjóra þess að þrýsta á stjórnvöld/Flugstoðir að hrinda í framkvæmd tillögum sem svokölluð réttarstöðunefnd á vegum ríkisstjórnarinnar skilaði 30. júní 1997. Niðurstaða nefndarinnar var einróma og líta flugumferðarstjórar svo á að hún sé ígildi kjarasamnings. Flugumferðarstjórar telja sig knúna til að beita verkfallsvopni til að knýja á um að tillögur ríkisvaldsins um ráðstafanir sem eiga að tryggja rekstraröryggi flugumferðarþjónustunnar og sem birtast í nefndarálitinu komist til framkvæmda. Sáttatilraunir Ríkissáttasemjara í deilunni hafa til þessa reynst árangurslausar.”

„Markmið FÍF í kjarasamningum 2008 taka mið af niðurstöðum réttarstöðunefndar frá 1997. Megin áhersla hefur verið lögð á að minnka óhóflegt vinnuálag og leiðrétta kjör flugumferðarstjóra til samræmis við kjör atvinnuflugmanna sem er sú stétt sem nefndin telur hafa samsvarandi ábyrgð og flugumferðarstjórar.”

„Flugumferðarstjórum á Íslandi hefur ekki fjölgað í samræmi við aukin umsvif í flugi á íslenska flugstjórnarsvæðinu á undanförnum árum, sem hefur að jafnaði verið 7-8% á ári. Flugumferð um íslenska flugstjórnarsvæðið fyrstu fimm mánuði þessa árs hefur aukist um 13,2% frá því sem var fyrstu fimm mánuði síðasta árs, sem þó var metár. Flugumferðarstjórar hafa alla tíð unnið óhóflega mikla yfirvinnu til að sinna þeirri þjónustu sem íslensk stjórnvöld hafa tekið að sér í flugumferðarstjórn. Nauðsynlegt er því að fjölga flugumferðarstjórum og draga úr yfirvinnu.”