Hugsanlegur flutningur höfuðstöðva Creditinfo er ennþá í kortunum, að sögn Reynis Grétarssonar, forstjóra fyrirtækisins. „Já, við höfum ekki tekið ákvörðun ennþá um hvert við flytjum eða hvenær. Við fengum viðbrögð við þessum áætlunum okkar sem sýndu okkur að það er mikill vilji til að halda þessu fyrirtæki á Íslandi, meðal annars frá ráðuneytum. Það hafði áhrif. Svo höfum við verið í viðræðum um víðtækt samstarf við annað fyrirtæki í okkar geira og bíða stærri ákvarðanir, meðal annars um flutninga eftir niðurstöðum úr þeim viðræðum. Við gerum ennþá ráð fyrir að flytja höfuðstöðvar til Evrópu. Ef gjaldeyrishöft verða ekki fyrirstaða, þá munum við reyna að halda móðurfélaginu á Íslandi. Við erum íslenskt fyrirtæki og viljum vera það, svo lengi sem aðstæður gera það ekki ómögulegt.“

Starfsmenn Creditinfo eru nú um 280 talsins og þar af eru um 55 á Íslandi. „Við vorum fleiri einu sinni, en höfum selt nokkur dótturfyrirtækja okkar t.d. í Grikklandi, Póllandi og Dubai. Þessi fyrirtæki voru meira að vinna í fyrirtækjaupplýsingum og skýrslugerð um þau. Þá voru þessar sölur einnig gerðar til að geta keypt út hluthafa og nú er Creditinfo alfarið í minni eigu og starfsmanna. Það er í sjálfu sér ekki markmið að vera stór. Markmiðið er að vera góður í því sem maður er að gera og að búa til vinnustað sem gott er að vinna á.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér .