Farþegum Icelandair til Íslands hélt áfram að fjölga í október og voru þeir tæplega 154 þúsund talsins eða um 16% fleiri en í október í fyrra. Heildarfjöldi farþega dróst hinsvegar saman um 3% og var 341 þúsund, á sama tíma og framboðnum sætum fækkaði um 13%, sem skilaði 85.3% sætanýtingu samanborið við 80.9% á sama tíma í fyrra.

Þetta kemur fram í flutningatölum sem félagið hefur sent frá sér, en það segir aukninguna vera í samræmi við aukninguna á ferðamannamarkaðinn til Íslands að undanförnu.

Það sem af er ári hefur Icelandair flutt um 1,6 milljón farþega til Íslands sem er um 26% aukning frá árinu 2018. Farþegum frá Íslandi fjölgaði einnig í október miðað við sama tíma í fyrra eða um 15% og hefur fjölgað um 20% það sem af er ári. Í samræmi við breyttar áherslur fækkaði skiptifarþegum félagsins í október um 24% og hefur fækkað um 8% það sem af er ári.

Heildarfarþegafjöldi Icelandair fyrstu tíu mánuði ársins er tæpar 3,9 milljónir og hefur farþegafjöldinn aukist um 8% á milli ára. Komustundvísi í október var 75% samanborið við 67% í október í fyrra.

Icelandair segir að mikillárangur hafi náðst í að bæta stundvísi í millilandastarfsemi félagsins að undanförnu, þrátt fyrir álag og breytingar á leiðakerfinu vegna kyrrsetningar MAX vélanna, með styrkingu á innviðum og breyttum vinnuferlum.

Icelandair mun, eins og áður hefur verið kynnt, halda áfram að leggja áherslu á markaðina til og frá Íslandi í vetur. Sveigjanleiki í leiðakerfi félagsins gerir því kleift að færa tíðni á milli áfangastaða og nýta flugflotann á leiðum þar sem eftirspurn eftir ferðum til og frá Íslandi er áætluð mikil.