Í júní flutti Icelandair um 440 þúsund farþega í millilandaflugi. Þá voru þeir 20% fleiri en á sama tíma á síðasta ári. Framboðsaukning á milli ára nam 22% og sætanýting var 83,6%, samanborið við 84,2% á sama tíma í fyrra.

Farþegar í innanlandsflugi og Grænlandsflugi voru 29 þúsund í júní og fjölgaði um 3% á milli ára.  Framboð félagsins var aukið um 12% samanborið við júní 2015. Sætanýting nam 68,3% samanborið við 74,7% í fyrra. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Icelandair.

Lakari sætanýting skýrist að sögn vegna viðhaldsskoðana á Bombardier Q200 vélum félagsins og þar með meiri notkun á Bombardier Q400 vélum sem taka fleiri farþega. Einnig hafi verið sveiflur í eftirspurn eftir flugi til Grænlands.

Seldum blokktímum í leiguflugi fækkaði um 12% á milli ára. Fraktflutningar jukust um 6% frá því á síðasta ári. Fjöldi seldra gistinótta á hótelum félagsins jókst um 1% samanborið við júní í fyrra og herbergjanýting var 84,5% samanborið við 80,7% á síðasta ári.