Á hluthafafundi sænska flugfélagsins fékk útgáfa á forgangshlutafé að andvirði 194 milljóna sænskra króna (1,86 milljarða króna) einróma samþykki, segir í tilkynningu FlyMe.

Hluthöfum í flugfélaginu er þegar tryggður 67% útgáfunnar. Hverjum hluthafa standa til boða þrír nýjir hlutir fyrir hvern hlut sem þeir eiga, á genginu 0,65 sænskar krónur á hlut (6,23 krónur).

Eignarhaldfélagið Fons er stærsti hluthafinn í FlyMe, með rúmlega 20% hlut.

Á fundinum kom einnig fram að Finn Thaulow verður nú forstjóri félagsins, en fráfarandi forstjóri félagsins, Björn Olegård, verður áfram stjórnarformaður. Fredrik Skanselid mun áfram verða framkvæmdarstjóri dótturfyrirtækisins FlyMe Sweden AB.

Thaulow segist ánægður með stuðning hluthafa og að það gefi fyrirtækinu grundvöll til frekari þenslu.