Til að bregðast við miklum innflutningi og til að koma tómum frystigámum til landsins hafa Samskip gripið til þess ráðs að leigja gámaflutningaskip í aukaferð til Íslands. Með auknum innflutningi eykst ójafnvægið einnig í flutningsþyngd, því útflutningur Íslands er jafnan þyngri en innflutningurinn.

Gámaskipið, sem nefnist Ice Moon, kom í höfn í Rotterdam í Hollandi 12. þessa mánaðar og var þar lestað gámum, bæði með vörum og svo tómum frystigámum til nýtingar á Íslandi. Skipið kom til Reykjavíkur á mánudagsmorgun síðastliðinn.

„Útflutningur héðan hefur sögulega séð verið nokkuð stöðugur, en innflutningurinn eykst með hagsveiflunni,“ segir Guðmundur Óskarsson, forstöðumaður flutningastjórnunardeildar Samskipa á vef fyrirtækisins.

Guðmundur segir að þá verði til ákveðið ójafnvægi því útfluttu vörurnar, svo sem gámar með frosnum sjávarafurðum eða þurrvara úr iðnaði, séu að jafnaði þyngri á meðan innfluttu vörurnar séu léttari og rúmfrekari. Undir þær þarf því fleiri gáma.

„Í þessari aukaferð kemur skipið til okkar með vörur og tóma frystigáma, en fer aftur lestað tómum þurrgámum sem safnast upp vegna þessa ójafnvægis í inn- og útflutningi,“ segir Guðmundur. Ice Moon er smíðað árið 2008 og ræður við flutning á 700 tuttugu feta gámum, en heildarburðageta þess er 8.200 tonn. Skipið er 130 metra langt og 21 metri á breidd. Það er væntanlegt aftur til Rotterdam, 20. þessa mánaðar.