Fjármálaeftirlitið hefur farið fram á að Drómi fari að vaxtalögum og hætti meðal annars við afturköllun endurútreiknings. Í ákvörðun eftirlitsins kemur fram að Drómi hafi afturkallað endurútreikning og ekki fellt niður tryggingarbréf sem sett voru til tryggingar skuldabréfum. Athugunin leiddi í ljós að Drómi hf. hefði ekki hlutast til um afléttingu veðbanda þegar krafa hefði talist að fullu greidd miðað við endurútreikning.

Drómi telur að félagið sé óbundið af vaxtalögum þar sem slitastjórnin telji þau brjóta í bága við stjórnarskrá. Í ákvörðun FME segir að það sé hlutverk dómstóla að úrskurða um hvort lög teljist samræmast stjórnarskrá. Eftirlitsskyldir aðilar þurfa að gæta þess að hlíta lögum en ef eftirlitsskyldur aðili telur að lög standist ekki ákvæði stjórnarskrár þarf viðkomandi að láta reyna á þá afstöðu fyrir dómstólum.