Fjármálaeftirlitið hefur sektað Icelandair Group um fjórar milljónir króna vegna brota á lögum um verðbréfaviðskipti. Brotið fólst í því að tilkynna ekki innan tilskilinna tímamarka um viðskipti fruminnherja með hlutabréf félagsins og birta ekki upplýsingar um viðskipti stjórnenda.

Í tilkynningu frá FME segir að samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti beri félagi að tilkynna samdægurs til FME þegar fruminnherji hefur tilkynnt honum um viðskipti með fjármálagerninga þess, en FME hefur túlkað reglurnar þannig að fullnægjandi sé senda tilkynningu fyrir opnun markaða daginn eftir. Þá beri að tilkynna um viðskipti stjórnenda eins fljótt og auðið er og á jafnræðisgrundvelli.

Í málinu var um að ræða þrenn viðskipti. Í fyrsta lagi þátttöku aðila fjárhagslega tengdan stjórnanda í Icelandair í hlutafjárútboði félagsins með kaupum á 250.539.559 hlutum. Niðurstöður útboðsins lágu fyrir þann 28. desember 2010. Icelandair sendi tilkynningu um viðskiptin til Fjármálaeftirlitsins, eftir opnun markaða, þann 29. desember 2010 kl. 14:01 og sinnti því ekki skyldum sínum. Þá birti Icelandair ekki opinberlega upplýsingar um viðskiptin.

Í öðru lagi er um að ræða viðskipti þann 15. febrúar 2011 en þá seldi fruminnherji 150.000 hluti í Icelandair. Icelandair sendi tilkynningu til Fjármálaeftirlitsins, eftir opnun markaða, þann 22. febrúar 2011 kl. 13:37.

Í þriðja lagi er um að ræða viðskipti þann 28. febrúar 2011 en þá seldi fruminnherji 35.000.000 hluti í Icelandair. Icelandair sendi tilkynningu um viðskiptin, eftir opnun markaða, þann 1. mars 2011 kl. 11:55.

Í tilkynningu FME segir að hvað varðar alvarleika málsins hafi verið litið til þess að umfang viðskipta með hlutabréf Icelandair á umræddu tímabili hafi verið verulegt, á móti hafi verið litið til þess að rannsókn FME hafi dregist vegna atvika sem ekki verði rakin til fyrirtækisins.