Gunnar Þ. Andersen, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, segir í samtali við Viðskiptablaðið að eftirlitið hafi fengið rafræn gögn um kynningu á lánamálum Kaupþings frá 25. september sl. til sín um áramót. Hann segir að gögnin hafi verið send eftirlitinu aftur eftir það en vísar því algjörlega á bug að eftirlitið hafi lekið þeim.

Ólafur Arnarson, höfundur bókarinnar Sofandi að feigðarósi og Pressupenni, segist á vefnum í dag hafa fengið það staðfest úr fleiri en einni átt að umrædd gögn hafi verið send til FME, fimmtudaginn 30. júlí, innan við sólarhring áður en þau voru birt á síðunni Wikileaks.

Gunnar kveðst í samtali við Viðskiptablaðið ekki kannast við að FME hafi fengið gögnin á þeim degi. Hann segir að FME hafi haft gögnin undir höndum frá áramótum. Gögnin hafi þó verið send eftirlitinu aftur og er hann að láta kanna hvenær nákvæmlega.

Hann ítrekar hins vegar að það þjóni ekki hagsmunum FME að leka slíkum upplýsingum.

Ólafur segist ekki fullyrða að lekinn á gögnunum sé frá FME. Í ljósi þess hins vegar að FME hafi haft aðgang að umræddri kynningu í tíu mánuði „er það hins vegar einstaklega óheppilegt að FME skuli hafa sérstaklega  óskað efitr þessum gögnum daginn áður en þau urðu opinber á Wikileaks netsíðunni," skrifar Ólafur.