Í lok október tilkynnti SÍF um kaup félagsins á franska matvælaframleiðslufyrirtækinu Labeyrie Group, með fyrirvara um samþykki samkeppnisyfirvalda í Frakklandi. Í kjölfar þess fór fram hlutafjárútboð, en úthlutun áskrifta fór fram 24. nóvember síðastliðinn. Selt var nýtt hlutafé að nafnverði rúmlega 4,2 ma.kr. á genginu 4,80 eða fyrir rúmlega 20,2 ma.kr. að markaðsvirði. Nú liggur fyrir samþykki franskra samkeppnisyfirvalda á kaupunum, án skilyrða eða athugasemda. Var því gengið frá hækkun hlutafjár á stjórnarfundi SÍF sem haldinn var í dag.

"Gert er ráð fyrir að skráningu nýrra hluta í Kauphöll Íslands og afhendingu þeirra til kaupenda verði lokið miðvikudaginn 8. desember næstkomandi.

Eftir hækkunina verður heildarhlutafé SÍF komið í rúmlega 5,7 milljarða króna. Fyrir lok febrúar á næsta ári er þó fyrirhuguð frekari hækkun hlutafjár, um rúmlega 147 m.kr., vegna kaupa stjórnenda og annarra starfsmanna Labeyrie Group. SÍF stefnir að því að greiða fyrir kaupin á Labeyrie þann 17. desember næstkomandi og mun félagið verða hluti af SÍF samstæðunni frá og með þeim degi," segir í Hálffimm fréttum KB banka.