Hlutafjárútboði Íslandsbanka hf. til forgangsréttarhafa lauk í gær. Boðnir voru til sölu 1.500 milljón hlutir á 10,65 krónur á hlut. Andvirði útboðsins var því 16 milljarðar króna. Alls skráðu 4.153 hluthafar, sem eru eigendur 87% hlutafjár Íslandsbanka, sig fyrir útboðinu, en áskriftartímabilið stóð frá 17. desember til 4. janúar. Hluthafar óskuðu samtals eftir 42% meira en í boði var eða 2.124 milljónum hluta að andvirði 22,6 milljarðar króna.

Umframáskriftum hefur verið úthlutað í samræmi við innbyrðis forgangsrétt þeirra hluthafa sem óskuðu eftir að kaupa meira en nam forgangsrétti þeirra. Á næstu dögum verða sendir út greiðsluseðlar til hluthafa og mun Íslandsbanki afhenda hluthöfum hina nýju hluti eftir að áskriftir eru greiddar. Gjalddagi greiðsluseðlanna er 25. janúar. Markaðsviðskipti Íslandsbanka höfðu umsjón með útboðinu.

Samanber fyrri tilkynningu til Kauphallar og umfjöllun í útboðslýsingu mun bankaráð Íslandsbanka á fundi sínum í dag 5. janúar taka ákvörðun um hvort nýtt verði heimild til sölu á 500 milljón hlutum án forgangsréttar til fjárfesta, en hún var veitt á hluthafafundi 3. nóvember sl. Niðurstaða bankaráðs verður kynnt fyrir opnun Kauphallar á fimmtudag.