Í ræðu Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra á fjármálaráðstefnu Samtaka sveitarfélaga kom fram að ýmsar stórar samgönguframkvæmdir eru tilbúnar til forvals og útboða. Þar er um að ræða Suðurlandsveg frá Selfossi til Reykjavíkur, Vesturlandsveg frá Þingvallavegi að Hvalfjarðargöngum, stækkun flugstöðvar á Akureyri í framhaldi af lengingu flugbrautar þar, samgöngumiðstöð í Reykjavík og Vaðlaheiðargöng.

Þá er undirbúningi lokið fyrir þrjú útboð vegna Landeyjarhafnar, byggingu á þjónustu- og ferjuhúsi, hafnargarði og skipaaðstöðu og dýpkun innsiglingarrennu. Einnig mun verða haldið áfram með áætlaðar vegaframkvæmdir víðsvegur um landið. Loks gat forsætisráðherra að í framhaldi af farsímavæðingu er nú unnið að háhraðatengingum um land allt af fullum krafti.