„Við höfum verið að skoða nokkur mál þar sem við erum sannfærð um að um markaðsmisnotkun var að ræða og það eru fleiri á leiðinni,“ segir Gunnar Andersen, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, í viðtali við Financial Times. Blaðið hefur eftir Gunnari að stofnunin sé sannfærð um að „alvarleg“ markaðsmisnotkun hafi átt sér stað og að hann hafi heitið því að hafa uppi á hinum brotlegu.

Fram kemur í frétt FT að FME hafi vísað 20 málum til sérstaks saksóknara og mörg til viðbótar væru í rannsókn. Málin sem vísað var til saksóknara í síðustu viku eru sögð hafa tengst lánum til fyrirtækis í Karabíska hafinu í eigu Kevin Stanford. Fram kemur að Stanford hafi verið viðskiptafélagi Baugsveldisins, sem hafi fjárfest í verslunum á borð við House of Fraser og Hamleys og tekið mikið af lánum hjá Kaupþingi. FT segist ekki hafa getað haft uppi á Stanford, en tekur fram að hann sé ekki sakaður um að hafa gert neitt af sér.

FT hefur eftir Gunnari Andersen að það taki að minnsta kosti allt þetta ár að fara í gegnum sönnunargögnin. Eitt mál sem vísað hafi verið til sérstaks saksóknara hafi falið í sér að fara yfir meira en 800.000 tölvupósta, sem sýni hve erfið rannsóknin sé.

Frétt FT.