John Coleman, forstjóri bresku stórvöruverslunarinnar House of Fraser, gæti fengið um sex milljónir punda, eða 806 milljónir króna, ef áætlanir Baugs um að kaupa félagið ganga eftir, segir í frétt breska dagblaðsins The Daily Telegraph.

Baugur hefur gert ófromlegt kauptilboð í House of Fraser að virði 351 milljón punda (47 milljarðar króna) og vinnur nú að áreiðanleikakönnun. The Daily Telegraph segir, án þess að geta heimilda, að Baugur muni gera formlegt kauptilboð í House of Fraser í næstu viku.

Í frétt breska dagblaðsins segir einng að Baugur hafi áhuga á að Coleman verði áfram hjá fyrirtækinu, sem hann hefur stýrt síðastliðin tíu ár, en íslenska fyrirtækið mun eflaust standa við starfslokasamninginn ef Coleman ákveður að starfa ekki áfram hjá fyrirtækinu.