Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group, keypti milljón hluti í félaginu í hlutafjárútboði Icelandair Group sem lauk 23. desember.

Gengi bréfanna var 2,5 og keypti Björgólfur því fyrir 2,5 milljónir króna.Hann átti ekki í félaginu fyrir kaupin, að því er kemur fram í tilkynningu til Kauphallar.

Sigþór Einarsson, aðstoðarforstjóri, og Bogi Nils Bogason, framkvæmdastjóri fjármála, keyptu fyrir sömu upphæð.

Þá keypti Sigurður Helgason, stjórnarformaður félagsins, fyrir rúmlega 1,2 milljónir króna eða 485 þúsund hluti og Katrín Olga Jóhannesdóttir stjórnarmaður fyrir um 550 þúsund krónur (223.293 hluti).

Icelandair Group keypti í útboðinu eigin bréf fyrir tæpar 13 milljónir króna, alls 5.161.771 hluti.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins keyptu um hundrað starfsmenn Icelandair Group í félaginu í hlutafjárútboðinu.