Björgólfur Jóhannsson forstjóri Icelandair Group hefur sent starfsmönnum félagssamstæðunnar bréf og svarar í því málflutningi forsvarsmanna flugmanna, sem birst hefur í fjölmiðlum undanfarna daga og kemur fram í fréttabréfi FÍA.

Björgólfur segir útreikninga flugmanna á launum stjórnenda Icelandair ranga og hagnað hluthafa á gengishækkunum villandi. Hann segir meðal­heild­ar­laun flug­manna hafi hækkað mun meira en laun stjórnenda félagsins sam­kvæmt gögn­um frá Hag­stofu Íslands

Björgólfur segir  að á árinu 2013 hafi starfað að meðaltali 1.503 starfs­menn hjá Icelanda­ir ehf. í 1.381 stöðugildi. Af 100 launa­hæstu starfs­mönn­um fé­lags­ins voru 92 flug­menn.

Hér má lesa bréf Björgólfs í heild sinni:

Kæra samstarfsfólk,

Frá því að ég hóf störf hjá Icelandair Group fyrir rétt rúmum sex árum þá hefur félagið nokkrum sinnum fengið á sig alvarlega ágjöf. Þar ber helst að nefna efnahagshrun og tvö eldgos. Sem betur fer hefur félagið staðið þetta af sér og stendur sterkara eftir þessar prófraunir og hefur árangur félagsins síðustu ár verið mjög góður. Það sem fyrst og fremst hefur tryggt þennan árangur er frábært starfsfólk sem sinnir fórnfúsu starfi á öllum sviðum starfseminnar. Þessi sex ár hef ég skynjað samstöðu meðal starfsmanna, þeir eru stoltir af því að vinna fyrir Icelandair Group og vilja hag félagsins sem mestan.

Ég hef hvorki tjáð mig í fjölmiðlum né á öðrum samskiptamiðlum um samningamál við FÍA fyrir utan það sem kom á MyWork fyrir nokkru síðan. Fréttabréf FÍA sem kom út í dag tekur steininn úr í samskiptum mínum við FÍA og með öllu óskiljanlegt að setja mál fram með svo ómerkilegum hætti. Vegna ýmissa ummæla sem hafa fallið í viðtölum að undanförnu, og þess sem kemur fram í fréttabréfi FÍA, tel ég rétt að skrifa ykkur þetta bréf til að leiðrétta rangfærslur í málflutningi FÍA.

Hækkanir til stjórnenda

Fullyrðingar um að stjórnendur félagsins hafi fengið meiri hækkanir en flugmenn eru rangar. Ég hef skýrt það út fyrir formanni FÍA og formanni samninganefndar FÍA. Þrátt fyrir það er fullyrt í fjölmiðlaviðtölum og fréttabréfi FÍA að stjórnendur hafi fengið gríðarlegar hækkanir á undanförnum árum og árið 2010 tekið sem viðmiðun. Sá málflutningur er efnislega rangur. Grunnlaun stjórnenda hafa ekki hækkað umfram samningsbundnar launahækkanir á almennum markaði síðan ég tók við sem forstjóri félagsins. Rétt er að vekja á því athygli að stjórnendur afsöluðu sér samningsbundnum launahækkunum á árinu 2009 vegna bágrar fjárhagsstöðu fyrirtækisins. Flugmenn félagsins voru jafnframt beðnir um að leggjast á árarnar árið 2009 með launalækkunum, þegar félagið var í lífróðri, en höfnuðu því. Launahækkanir stjórnenda eru þannig lægri en meðaltalslaunahækkanir flugmanna á sama tímabili.

Í þeim samtölum sem ég hef átt við forráðamenn FÍA þá vísa þeir iðulega til ríkulegra launahækkana sem ég, forstjóri Icelandair Group, framkvæmdastjóri fjármála Icelandair Group og framkvæmdastjóri Icelandair hafa fengið á undanförnum árum. Sannleikurinn er sá að frá árinu 2009, sem er fyrsta heila starfsár okkar allra í núverandi stöðum, hafa heildarlaun okkar hækkað um 21,2% á fjórum árum, undirritaður hefur hækkað um 12,4%, framkvæmdastjóri fjármála Icelandair Group um 40,6% og framkvæmdastjóri Icelandair um 10,6%. Þetta er hækkun heildarlauna milli áranna 2009 og 2013 með hlunnindum og kaupaukum – þar sem allar greiðslur eru taldar.  Á sama tímabili hafa meðalheildarlaun flugmanna hækkað mun meira samkvæmt gögnum frá Hagstofu Íslands. Launavísitala samkvæmt Hagstofu Íslands hefur hækkað um 38,5% á sama tíma. Hluti launa stjórnenda er vegna kaupauka sem munu ganga til baka ef reksturinn fer á verri veg. Kaupauki vegna ársins 2009 var greiddur á því ári en á árinu 2010 var fyrirkomulaginu breytt þannig að kaupaukinn var greiddur eftir á og hefur það verið þannig síðan og þess vegna voru launin mun lægri 2010 en 2009.

Það að taka viðmiðunarárið 2010 í ljósi þessa er því gróf fölsun sérstaklega vegna þess að málið hefur nokkrum sinnum verið skýrt út fyrir forráðamönnum FÍA. Í þessu samhengi er rétt að taka fram að samkvæmt ársreikningum 2013 erum við stjórnendur hjá Icelandair Group á lægri launum en stjórnendur skráðra fyrirtækja á Íslandi af sambærilegri stærð.

Á árinu 2013 störfuðu að meðaltali 1.503 starfsmenn hjá Icelandair ehf. í 1.381 stöðugildi. Af 100 launahæstu starfsmönnum félagsins voru 92 flugmenn. Það er ógerningur að færa rök fyrir því að flugmenn hjá Icelandair hafi borið skarðan hlut frá borði gagnvart stjórnendum félagsins eins og skilja má af umfjöllunum í fjölmiðlum og í fréttabréfi FÍA.

Í ofangreindum launatölum er allt meðtalið, þ.e. öll laun, kaupaukar, hlunnindi vegna bifreiða og bifreiðastyrkir en ekki dagpeningar enda er þeim ætlað að vera endurgreiðsla á útlögðum kostnaði starfsmanna.  Stjórnendur fá ekki greitt sérstaklega fyrir yfirvinnu. Kaupaukar hafa nokkuð mikil áhrif á heildarlaun stjórnenda eins og fram kom hér að ofan. Þeir eru hins vegar ekki fastir í hendi og ef reksturinn fer á verri veg munu heildarlaun stjórnenda lækka, eins og dæmi eru um á undanförnum árum.

Tengsl þróunar hlutabréfaverðs við kjarabaráttu FÍA eru engin

Óskyldum málum er blandað í umræðuna. Vikið hefur verið að hluthöfum félagsins og miklum ávinningi þeirra vegna hækkunar hlutabréfaverðs Icelandair Group á undanförnum árum, allt frá árinu 2009. Í þessu sambandi er rétt að taka fram eftirfarandi:


•    Á árinu 2006 voru hlutabréf í Icelandair Group seld á markaði á genginu 27, en gengið er nú um 17. Í byrjun árs 2009 var gengi hlutabréfa í félaginu 13,4.
•    Í byrjun árs 2011 var selt nýtt hlutafé í félaginu á genginu 2,5. Þá kom nýtt fé inn í félagið, samtals 10 milljarðar króna, sem styrkti félagið og var forsenda þess vaxtar sem við höfum séð undanfarin ár.
•    Það er því ljóst að margir hlutahafar töpuðu verulegum fjármunum á hlutabréfaeign sinni og þar á meðal eru margir af núverandi stjórnendum þess sem tóku þátt í hlutafjárútboðinu árið 2006.
•    Sem betur fer hafa þeir hluthafar sem höfðu trú á félaginu og keyptu bréf árið 2011 fengið góða ávöxtun, en því má aldrei gleyma að fjárfesting í hlutabréfum er áhættufjárfesting og ekki á vísan að róa.

Hlutaféð sem var selt á árinu 2011 var að langmestu leyti keypt af lífeyrissjóðum landsins. Það eru því sjóðfélagar lífeyrissjóðanna – meginþorri Íslendinga – sem  eru að njóta ávöxtunar hlutabréfanna. Þess má geta að EFÍA skilaði einna hæstri ávöxtun lífeyrissjóða landsins á árinu 2013 og hafði bein og óbein hlutabréfaeign sjóðsins í Icelandair Group áhrif þar á. Félagsmenn FÍA hafa þannig notið góðrar ávöxtunar hlutabréfanna, þótt það sé algerlega óviðkomandi kjarabaráttu þeirra, enda geta félagsmenn FÍA átt viðskipti á markaði hvenær sem er – öfugt við stjórnendur Icelandair sem eru innherjar og geta aðeins átt viðskipti nokkrum sinnum á ári.

Stjórnarlaun Icelandair Group

Stjórnarlaunum hjá Icelandair Group hefur einnig verið blandað inn í umræðuna. Þau hafa hækkað um 38% frá árinu 2008 sem er í takt við launahækkanir á almennum vinnumarkaði samkvæmt Hagstofu Íslands. Auk stjórnarlauna fá stjórnarmenn greitt fyrir setu í undirnefndum ef þeir sitja í slíkri nefnd. Fram til ársins 2012 fengu nefndarmenn greitt fyrir hvern fund en á árinu 2012 var fyrirkomulaginu breytt þannig að almennur nefndarmaður fær greiddar 100 þús. kr. á mánuði og hefur fjárhæðin haldist óbreytt síðan þá.

Allir okkar starfsmenn sitja við sama borð

Nú þegar hefur verið samið við 60% starfsmanna Icelandair Group og hefur flugmönnum verið boðinn samningur á sömu nótum og öðrum starfsmönnum. Rétt er að halda því til haga að allir stjórnendur félagsins hafa samþykkt 2,8% launahækkun.

Það sem fram hefur komið í fjölmiðlum varðandi takmarkaðan samningsvilja Icelandair Group er því rangt. Rétt er að benda á að ákveðnir starfshópar innan félagsins fá ársskalahækkanir árlega sem eru óháðar öllum öðrum samningum svo sem margir flugmenn og flugliðar. Ég batt miklar vonir við að okkur tækist að ná samningum við allar stéttir hjá fyrirtækinu á þeim nótum sem samið var um í janúar sl. þar sem horft væri til þess að ná stöðugleika í íslensku efnahagslífi og að kaupmáttur gæti aukist í eðlilegum skrefum.

Flugfélög eins og Icelandair eru í harðri samkeppni við lággjaldaflugfélög. Einn þáttur í þeirri baráttu eru kjarasamningar við flugmenn. Það er því mikilvægt að horft sé til bættrar samkeppnishæfni í öllum þáttum rekstrarins og að sjálfsögðu geta flugmenn ekki verið undanskildir þeirri eðlilegu kröfu frekar en aðrir starfsmenn.

Sem forstjóri Icelandair Group óska ég þess formlega fyrir hönd allra hluthafa félagsins að þeir starfsmenn félagsins sem ræða málefni þess opinberlega geri það af heiðarleika og með hag Icelandair Group að leiðarljósi — enda á hagur Icelandair Group og starfsmanna þess að vera samofinn.

Björgólfur Jóhannsson